Viðskiptagreind er ljótt orð

Æ,æ,æ,æ hvað mér finnst orðið viðskiptagreind ljótt, vont og alls ekki lýsandi fyrir fyrirbrigðið sem það á að lýsa. Viðskiptagreind er nefnilega þýðing á hugtakinu Business Intelligence líkt og t.d. Miðgreindarstofnunin er þýðing á nafninu Central Intelligence Agency.

Business Intelligence (BI) vísar almennt til þess að safna saman, greina og setja fram upplýsingar sem unnar eru úr gögnum sem  eru ekki endilega vel til þess fallin að rannsaka beint. Þannig gæti þetta vísað til vöruhúss gagna og skýrslugerðar upp úr því, teningavinnslu (MOLAP cubes) og þess háttar. Almennt hefur ekki verið talað um Data Mining (DM) sem BI fyrr en núna nýlega þar sem DM er almennt aðeins á færi sérfræðinga ennþá.

Það slæma er að ég hef enga góða þýðingu á BI á takteinum. Ég veit bara að viðskiptagreind er jafn vont orð og viðskiptagáfur. Ég væri mun sáttari við orðið viðskiptarannsóknir þótt það sé ekki neitt til að hrópa húrra fyrir en eins og menn vita þá þýðir orðið intelligence ekki næstum alltaf greind. Miklu frekar njósnir eða rannsóknir og eflaust eru fleiri þýðingar. Það vill nefnilega svo til að Intelligence í BI vísar til rannsókna, ekki greindar. Meira að segja orðið business er hæpið að þýða sem viðskipti í þessu tilfelli – en látum það liggja á milli hluta, það er nógu nálægt.

En burt með þetta orð, notum frekar BI beint, VR (Viðskiptarannsóknir) eða eitthvað betra sem einhver íslenskusnillingurinn getur hugsað upp.

Tuðað þann áttunda febrúar 2008.