Þekkingarfyrirtækið Miracle hefur undanfarin 20 ár boðið fjölbreytta ráðgjafar-, rekstrar- og eftirlitsþjónustu fyrir gagnakerfi og -grunna á borð við Oracle, Informix, Microsoft SQL Server, MySQL, PostgreSQL, MariaDB og fleiri. Samhliða þessu hefur Miracle þróað margvísleg gagnavöruhús og gagnagrunnstengd upplýsingakerfi fyrir viðskiptavini.
„Þegar að kemur að rekstri og eftirliti, þá er nálgunin varðandi þjónustu ætíð sérsniðin að þörfum hvers og eins. Boðið er upp á aðgengi að sérfræðingateymi og viðhaldsþjónustu allan sólarhringinn og brugðist er samstundis við hvers konar frávikum sem ógna öryggi eða stöðugleika gagnakerfa. Sömuleiðis er úthýsing á rekstri gagnagrunna og vöruhúsa í hluta að heild hluti af vöruframboðinu. Öll þekking er líka til staðar hjá Miracle hvað snertir innviði fyrir skýjalausnir,” segir Emil Björn Héðinsson, þjónustustjóri Miracle.
Hestamaður í rekstrarþjónustu
Aðspurður segist Emil Björn vera miðaldra fjölskyldukarl og hestamaður, sem byrjaði í tölvubransanum árið 1986 og var síðan alla tíð í fjármálageiranum fram að tíma hans hjá Miracle. „Lengst af var ég tæknistjóri hjá Borgun og hef nánast alltaf verið rekstrar- og þjónustumegin í lífinu. Ég kom til Miracle í desember 2020 og stærsta ástæðan var sennilega sú að ég þekkti mjög vel til fyrirtækisins eftir að hafa verið viðskiptavinur þess til fjölda ára.“
Fyrirbyggjandi frumkvæði
„Við hérna hjá rekstrarþjónustu Miracle sjáum meðal annars um rekstur og vöktun allra gagnagrunna og gagnadrifinna kerfa, vandamálagreiningu og lausnir, til dæmis vegna hraðavandamála, sem sumir vilja reyndar kalla hægagang. Við reynum að vera fyrirbyggjandi og sýna frumkvæði í okkar aðferðafræði á sviði aðgangs- og öryggismála, til að mynda með því að rýna aðganga og gera reglulegar úttektir,“ segir Emil Björn.
Miracle Serenity
Þess má geta að Miracle hefur nú þróað grunnviði og lausnavöndul, sem nefnist „Miracle Serenity“. Fyrstu tvær lausnirnar í vöndlinum eru annars vegar vöktunarþjónustan Serenity Monitor og hins vegar keyrsluumhverfið Serenity Jobs. Fleiri lausnir eru í þróun. Monitor vaktar stöðu á vélum, diskum, gagnagrunnum og verkum á meðan Jobs skipuleggur og keyrir afritatöku og endurheimt, öryggisuppfærslur og aðrar keyrslur eða runuvinnslur í reglulegri keyrslu. Miracle Serenity-grunnviðirnir eru hluti af víðtækri rekstrarþjónustu Miracle.
Einföld viðskiptahugmynd
Emil Björn kveður Miracle stofnað 2003 og byggja á þeirri einföldu viðskiptahugmynd að manna vinnustaðinn með bestu sérfræðingum landsins á sínu sviði. “Fólkið okkar er einbeitt í að veita fyrsta flokks þjónustu við að reka gagnainnviði og sinna viðeigandi eftirliti, ásamt því að veita aðstoð við högun og útfærslu þessara innviða. Sérfræðingarnir okkar eru óháðir birgjum og vinna einfaldlega með þau kerfi og tól sem viðskiptavinir velja á eigin spýtur til að tryggja öruggt flæði gagna. Það skiptir okkur öllu máli, að viðskiptavinir Miracle geti ætíð treyst á hlutlausa ráðgjöf þar sem hagsmunir þeirra eru leiðarljósið,” segir Emil Björn.